Saga Hússins

Brúin

Sumarið 1891 var fyrir forgöngu Tryggva Gunnarssonar byggð hengibrú yfir Ölfusá hjá Selfossi. Hún var þá mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í og var brúin formlega opnuð 8. Sept 1891. Að ráðast í byggingu brúar yfir vatnsmesta fljót Íslands var algjört stórvirki fyrir fátæka þjóð. Byggingarefni í brúna kom frá Englandi og voru yfir brúarsmiðirnir frá Newcastle. Byggingarefninu var landað á Eyrabakka og var svo beðið eftir snjókomu og frosti þannig að auðveldara væri að draga efnið 12 km leið á Selfoss.

Með tilkomu brúarinnar urðu straumhvörf í þróun byggðar á Selfossi. Árið 1900 voru 40 íbúar í Selfossbyggð en Selfoss er nú langstærsti bær á Suðurlandi. Skorið var á helstu lífæð samgangna á Suðurlandi þegar gamla Ölfusárbrúin gaf sig undan þunga tveggja vörubíla, aðfaranótt 6. september 1944. Ökumennirnir voru einir í bílunum sem steyptust í ána þegar annar burðarstrengur brúarinnar slitnaði. Öðrum varð ekki meint af en hinn lenti í bráðum lífsháska en bjargaðist giftusamlega af eigin rammleik eftir að hafa flotið á dekki eina 300 metra niður ána. Sá maður hét Jón I Guðmundsson og var hann síðar skipaður yfirlögregluþjónn á Selfossi.

Strax var hafist handa við að byggja nýja brú. Seinni heimstyrjöldinni var þá að ljúka og vinnuafl því á lausu í Bretlandi og gekk brúarsmíði vel fyrir sig. Ný Ölfusábrú var svo tekin í notkun 22. desember 1945, falleg hengibrú sem þjónar okkur enn.

Selfoss

Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 “undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá” Það eru fá sveitarfélög á landinu sem eiga enn uppistandandi fyrsta húsið sem reist var á viðkomandi þéttbýlisstað. Segja má að saga Selfoss sé samofin sögu Tryggvaskála, en skálinn var húsið sem markaði hugmynd af byggðarkjarna. Í Tryggvaskála var fyrsti barnaskólinn, fyrsta símstöðin, fyrsti bankinn á Selfossi og þannig mætti lengi telja. Tryggvaskáli og Selfoss eru enn í dag eins og fyrir rúmlega 120 árum er brúin var byggð, vegamót til allra vinsælustu ferðamannastaða landsins. Selfoss nafnið er óvenju þjálft fyrir útlendinga samanborið við byggðar og staðar nöfn almennt á landinu og ef erlendir ferðamenn vilja slá um sig, þá er auðvelt að segja Selfoss.

Ölfusá

Ölfusá er vatnsmesta á landsins. Hún myndast er Sogið sem m.a kemur úr Þingvallavatni og Hvítá sem rennur úr Langjökli og hittir fyrir Gullfoss á leið sinni til sjávar, renna saman og verða að Ölfusá. Stærsti Lax sem veiðst hefur á suðurlandi var 39 pund og veiddist hann árið 1910 í Ölfusá. Stórflóð úr Ölfusá hafa hitt Tryggvaskála fyrir nokkrum sinnum. Stærst voru flóðin 1948 og 1968 en þá óð starfsfólk Tryggvaskála vatn upp fyrir hné og var vistum bjargað með bát úr skálanum. Gaman er að skoða merkingar á Ölfusárbrú á móts við vesturhurð Tryggvaskála.

Jóruklettur heitir stóri kletturinn út í Ölfusá gegnt Tryggvaskála. Tröllskessan Jórunn frá Sandvík reiddist eitt sinn er hestur föður hennar fór halloka í hestaati. Hún reif læri undan sigurhrossinu og hljóp að Selfossi, sem þá var kallað Laxfoss. Á þessum arum var Ölfusá úbrúuð og þurfti hún því dauðþreytt að rífa bjarg úr hömrunum við árbakkann og henda þeim í fljótið ógurlega. Stiklaði Jórunn yfir og mælti um leið “Mátulegt er meyjastig, mál mun vera að gifta sig” Ekki fór það þó svo að hún eignaðist mann, en Jórunn settist svo að í Henglinum, gerðist hið mesta flagð og grandaði mönnum og málleysingjum á leið yfir Hellisheiði. Nykur er í Ölfusá og sá Hannes Gíslason bóndi á Kotferju hann sumarið 1905. Nykrinum lýsti Hannes svo að hann var sem hvítur hestur á sundi í ánni og stóðu haus og fax uppúr. Nykur þessi bjargaði svo seinna tveimur mönnum frá Stóru Sandvík frá drukknun er bát þeirra hvolfdi. Árið 1907 sáu fjórir menn skrímsli í Ölfusá. Skrímslið var 4-6 metrar að lengd og 2-3 metrar á breidd og sáu menninir það svamla í áni í um 30 mínútur og hélt það sig ofan við Laugadæli. Skrímslið var svart að lit og kúpt. Heimildir um skrímsli í Ölfusá og í Hvítá er allmargar. Skráðar heimildir eru einhverjir tugir og eru allt frá 1636 til okkar daga. Fyrir fáeinum árum sáu stangveiðimenn skrímslið við Gíslastaði og hundur sem með þeim var gelti ákaflega að fyrirbærinu, enda aldrei séð skrímsli áður. Flestum ber saman um stærð og lögun skrímslisins og því líklegt að um eitt og sama skrímslið sé að ræða.

Greiðasala

Vorið 1901 fluttist fyrsti gestgjafinn í Tryggvaskála. Það var Þorfinnur Jónsson, og setti hann strax upp gistingu og greiðasölu fyrir ferðamenn. Þá var Tryggvaskáli enn í upprunalegu horfi. Þorfinnur keypti svo Tryggvaskála af sýslunni árið 1904, en sýslan hafði keypt skálann af Tryggva Gunnarssyni. Þorfinnur byggði síðar við hann og seldi hann 1918.

Eftir frostaveturinn mikla gekk Tryggvaskáli kaupum og sölum næstu árin og var þar ávallt rekin greiðasala. Vorið 1934 reisti Guðlaugur Þórðarson samkomusal við Skálann og varð þá mikil breyting til veitingareksturs og samkomuhalds. Guðlaugur og dætur hans ráku Tryggvaskála til 1942.

Hótel- og veitingarekstur var umfangsmikill í Tryggvaskála eftir 1942 og fram til ársins 1974. Vertar allan þann tíma voru hjónin Brynjólfur Gíslason og Kristín Árnadóttir. Bryndís Brynjólfsdóttir dóttir þeirra hjóna var svo í framvarðarsveit þeirra sem björguðu Tryggvaskála, en til stóð að rífa hann upp úr 1990. Árið 1995 stofnaði hún ásamt Þór Vigfússyni, Árna Erlingssyni, Erlingi Sigurjónssyni. Skálavinafélagið sem stóð fyrir endurbyggingu skálans. Þeim skal þakka um alder.

Fyrsti Selfyssingurinn

Sigurður Sveinsson steinsmiður sem m.a vann við smíði Alþingishússins 1880-81 stjórnaði steinsmíði við Ölfusárbrú og að öllum líkindum við Tryggvaskála líka. En í Tryggvaskála höfðu hann og eiginkona hans María Matthíasdóttir vetursetu. Þeim fæddist í Tryggvaskála sonur þann 13. September 1890, eða rúmum mánuði eftir að skálinn var tekinn í notkun. Sonur þeirra var skírður Óskar og má því telja hann fyrsta innfædda þéttbýlisbúann á Selfossi.

Óskar þessi flutti einn sins liðs til Vesturheims árið 1911 og settist að í Winnipeg. Þar lærði hann rafmagnsfræði og blikksmíði og eftir sex ára dvöl tókst honum að finna upp nýjung varðandi rafmagnsbökunarofna. Fyrirtækið General Electric vildi kaupa einkaleyfi af honum fyrir 11 þúsund dali, en ungi Selfyssingurinn var stórhuga og brattur eins og háttur Selfyssinga er, hafnaði boðinu og ætlaði sjálfur að fá einkaleyfi og hefja framleiðslu. En draumur hans rættist ekki í það sinn, því meira fjármagn þurfti til en það sem hann, ungur og óþekktur gat aflað.

Óskar giftist hini norsk-íslensku Hansínu Amundsen og fluttu þau til Seattle á Kyrrahafsströnd Bandaríkjana og hóf Óskar störf hjá Boeng flugvélaverksmiðjunum 1933. Óskar átti langan farsælan feril innan Boeng verksmiðjana og jafnframt verkstjórn hannaði hann ný tæki í sambandi við vinnutilhögun og vinnuhagræðingu. Sæmdu forráðamenn verksmiðjanna hann margháttaðri viðurkenningu fyrir störf hans og veittu honum fjögurra ára starfslengingu.

Óskar heimsótti Ísland 1963 og kom að sjálfsögðu við í Tryggvaskála og skoðaði húsið sem hann fæddist í. Óskar lést þann 19. Febrúar 1970.

Eftir jarðskjálftann 1896 urðu hjónin á Svarfhóli húsnæðislaus og fluttust inn í Tryggvaskála. Þeim fæddist þar sonur er skírður var Guðmundur og var Jónsson.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson alþingismaður var ávallt stórhuga og má honum einna helst þakka fyrir grundvelli þess að seinna byggðist Selfoss upp sem þéttbýliskjarni. Tryggvi var fyrsti bankastjóri á Íslandi 1893, er hann var bankastjóri Landsbankans. Bankinn var við Bakarastræti og var nafni götunar breytt úr Bakarastræti í Bankastræti og er því óhætt að segja að yfirtaka bankana sé ekki ný af nálinni. Tryggvi Gunnarsson keypti Þrastarskóg og gaf UMFÍ landið. Hann var formaður hins Íslenska þjóðvinafélags, sat í bæjarstjórn Reykjavíkur og var formaður dýraverndunarsamtakana frá stofnun til dauðadags. Hann sat á alþingi í hátt í fjóra áratugi og hafði m.a umsjón með byggingu alþingishúsins. Hann ræktaði upp garðinn við alþingishúsið og var að lokum jarðsettur þar árið 1917 einn allra íslendinga.

Danakonungar

Sumarið 1907 heimsótti Friðrik 8. danakóngur Ísland. Mikið var haft við heimsókninni en kóngur fór um landið allt. Vegir voru ruddir, Kóngsvegur lagður og ferðaðist Friðrik með föruneyti á hestum um Suðurland í viku. Kom hann við í Tryggvaskála þann 5. ágúst eftir ferð í Haukadal, upp Hreppa og á búfjársýningu við Þjórsárbrú. Beið hans mikill fjöldi manns við Ölfusárbrú og Tryggvaskála og tók á móti honum með viðhöfn. “Konungur og Hannes Hafstein riðu í fararbroddi og fór hersingin eftir eggsléttum þjóðveginum í vestur og stansað var við Ölfusárbrú var skrifað í annálum. Í bókhaldsgögnum kemur fram á fylgiskjali 139 að séra Þórhallur Bjarnarson (sem var með í fylkingu konungs) hefur fengið 20 flöskur af öli í Tryggvaskála á 35 aura stk. með gleri, samtals kr. 7.

Sonur Friðriks 8, danski konungurinn Kristján X kom hingað til lands árið 1921 og eftir að hafa ferðast um allt suðurland í vikutíma fékk hann veislumáltíð í Tryggvaskála. Konungurinn borðaði í bláa salnum á efri hæð Tryggvaskála, sem seinna var eðlilega nefndur konungssalurinn.

Draugur í Tryggvaskála

Þann 30. September árið 1929 var bankað á vestur hurð Tryggvaskála með miklum látum og er Óli J. Ísfeld veitingamaður opnaði hurðina sá hann háa og granna konu með 8-10 ára gamalt barn með sér. Sýn þessi hvarf veitingamanninum jafn skjótt og hún birtist. Vitnaðist síðar að um var að ræða vinnukonu sem átti að byrja í Tryggvaskála þann dag, en hafði dáið um sumarið, án þess að það fréttist á Selfoss. Hún hafði fengið greitt fyrirfram fyrir vinnuna og í gegnum tíðina hefur starfsfólk Tryggvaskála fundið fyrir aðstoð á álagstímum.

Seinni heimstyrjöldin

Í heimstyrjöldinni síðari tóku Bretar Tryggvaskála yfir og voru þar með bækistöð, ásamt því að byggja upp braggahverfi úti fyrir á. Þann 9. Febrúar 1941 kom óvina sprengjuflugvél yfir Tryggvaskála, en þar voru hermenn að undirbúa sig fyrir messu. Flugvélin sneri svo við ofar yfir Ölfusá og er hún kom til baka og var yfir Laugardælaeyju gall við hvell skothríð. Einn maður lá í vallnum, kokkurinn Martin Hunter fékk skot í höfuðið þegar hann leit út um gluggann á eldhúsinu og lést hann samstundis.

Aðrir viðburðir

Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu var haldið árið 1912 í Reykjavík og þóttu það mikil tíðindi þá að lið frá Vestmannaeyjum tilkynnti sig og mætti til keppninnar. Á þessu móti, sem markaði upphaf mótahalds knattspyrnuliða á Íslandi, voru aðeins þrjú keppnislið: KR (þá FR), Fram og ÍBV (þá KV). Það tók knattspyrnumenn KV tvo daga að komast til Reykjavíkur. Þeir sigldu með dönsku skipi ms Pexvie til Stokkseyrar og gengu síðan með pjönkur sínar á bakinu sem leið lá til Selfoss og gist var um nóttina Tryggvaskála, en þar fengu eyjamenn þann besta lax sem þeir höfðu smakkað.